föstudagur, nóvember 28, 2003

Jeminn...

smá mistök hjá forsetanum en allt í lagi mér er ennþá boðið bara ekki í kvöldverð! Mikill léttir og minni áhyggjur af fatnaði. Samt pínku fúlt sko! Okkur er bara boðið í móttöku sem samanstendur víst af kampavíni og marsipansnittum eða eitthvað!
Visakortinu stórlétti líka!

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

streptokokkar og málstofa

Fór til læknis í morgun og fékk úrskurð um að streptokokkar hefður ráðist á innanverðan háls minn. Endalaust stuð á þessum bæ svo að ég er komin á pensilín ásamt Óðni sem er líka sár í hálsinum, hann var hjá föður sínum um helgina og hann er með streptokokka svo að já, ekkert skrýtið.
Mætti í málstofu upp í HÍ áðan um Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Mjög áhugavert, svo áhugavert að ég gæti hugsað mér að vinna þar! Verst hvað það mættu fáir.
Og ég ætla að mæta til forsetans á mánudaginn...hmm í hverju á maður að vera við svoleiðis tilefni. Spurning hvort þetta sé besta mögulega ástæða/afsökun fyrir því að fara að versla!

það hlaut að koma að því!

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff biðja Kolbrúnu Hlín Hlöðversdóttur að gera sér þá ánægju að koma til kvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs Alþingi fullveldisdaginn 1. desember 2003 kl. 19:00

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

unbelievable...

þetta er eiginlega orðið fáránlegt. Mér er enn einu sinni orðið illt í hálsinum og komin með hita! Almættinu sé lof fyrir það að á morgun er síðasti kennsludagur fyrir jól og ég er nokkurnveginn búin að skila öllu sem skila þarf.... á samt eftir að vinna að ferilmöppunni minni og klára skýrslugerðir/ígrundanir um ákveðna hluti og svo náttúrulega bara læra fyrir próf sem er bara hellingur. (já og skrifa alla vega eina grein fyrir næsta Stúdentablað ps. næsta blað kemur á fimmtudaginn með Fréttablaðinu). Svo óþarfi að halda að ég sé komin í eitthvað frí. Síðasta prófið er meiraðsegja 20. des en á móti kemur að skólinn byrjar aftur 15. janúar svo fríið verður svo sem ágætt. Stefni samt á að mæta í Borgó strax 5. janúar og vera þar bara eins mikið og ég kemst upp með næstu önn enda þessi fínasta vinnuaðstaða þar og svona. Mér vill oft verða lítið úr verki heima hjá mér því það virkar oft meira aðkallandi að þvo þvott og taka til og eitthvað svoleiðis rugl.

mánudagur, nóvember 24, 2003

A positive attitude!

A positive attitude may not solve all your problems, but it will annoy enough people to make it worth the effort.
Herm Albright (1876 - 1944)

Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum jafnvel bara mánuðum ef að nafn mitt og jákvæðni hefði borið upp saman í því samhengi að ég VÆRI jákvæð en ekki að ég ÞYRFTI að vera jákvæð. Það kom fyrir um daginn að ein vinkona mín sagði við mig: "Rosalega ert þú eitthvað jákvæð!" Það var góð tilfinning. Auðvitað kemur fyrir að ég hryn niður í þunglyndi og óhamingju enn þá en enginn verður óbarinn biskup og æfingin skapar meistarann og allt það. Enda taka þunglyndisköst mín orðið klukkutíma en ekki daga og mánuði eins og áður var :o)

Litla djammið mitt varð aðeins stærra en ég ætlaði á laugardaginn. En það vill oft verða þegar maður ætlar bara aðeins og má ekki vera lengi og allt það... ROSALEGA var gaman. Það er bara langt síðan það hefur verið svona gaman hjá mér. Ég fór út með Ástu Sól, en hún var búin að vera í úttlöndum í tæpar þrjár vikur. En allavega GAMAN!
Fór svo að læra í gær með Hrafnhildi og Ásu en við vorum að ljúka við verkefni um einhverfu og nám sem við erum svo að fara að kynna eftir 40 mínútur. Verð því að þjóta. Adios amigos...

laugardagur, nóvember 22, 2003

well...

allavega flúðu þau alltaf innar og innar og þegar allt virtist glatað og ekki hægt að flýja innar eða neðar þá bjargaðist allt! Bara svona týpísk formúla. Það var náttúrulega gaman að sjá Hugo Weaving sem Elrond aftur eftir að hafa horft á hann í MatrixMaraþoninu í sex klukkutíma um daginn sem Agent Smith.

Er að læra núna. Það er, á að vera að læra núna. Er að skrifa ritgerð með tveimur úr skólanum um framboð náms fyrir einhverfa í framhaldsskólum. Mjög áhugavert. Ég semsagt tók að mér að skrifa helling og þarf að hafa það tilbúið þegar við hittumst á morgun klukkan 12.

Verður þar af leiðandi lítið um djamm í kvöld, þrátt fyrir að vera barnalaus. Hugsa að ég reyni að kíkja alla vega á kaffihús í klukkutíma bara svona til að breyta um umhverfi... fara eitthvert þar sem eru ekki skólabækur semsagt.

föstudagur, nóvember 21, 2003

Sama myndin?!

ég er að horfa á Lord of the Rings: Two Towers með dóttur minni og við erum rétt að byrja og ég áttaði mig allt í einu á því að björgun Zion í The Matrix Revolutions og baráttan um Helm's Deep í Two Towers er næstum eins fyrir utan augljós atriði.

Og ég fékk hrós frá nemendum mínum... þau voru ánægð með kennsluna á þriðjudaginn :o) Sko mína.

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Gargandi snilld!

Þannig er mál með vexti að ég fékk í hendurnar allar þrjár seríurnar af Coupling um daginn og hef dundað mér við að glápa á þessa þætti síðustu dagar svona mitt í öllu verkefnaflóðinu...svo var ég veik í gær og kláraði að horfa á síðustu seríuna. Þvílík snilld, ég meina, ég hef gaman af að horfa á Friends en ég hreinlega garga og græt yfir þessum þáttum. Kærar þakkir til manneskjunnar sem gaf mér þetta tækifæri.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

leiðinlegt í tíma

svo ég tók netpróf í fyrsta skipti í langan tíma....

You are Neo
You are Neo, from "The Matrix." You
display a perfect fusion of heroism and
compassion.


What Matrix Persona Are You?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Femin?!

ég sem var búin að lýsa miklu frati á þessa síðu og sá svo linka á hana af síðunni hennar Helgu og fann þessa snilld þar! Gvöð, hvað mér líður mikið betur.

KOSTIRNIR VIÐ AÐ LIFA ÁN KYNLÍFS

Örvæntu ekki ef kynlífið er skyndilega horfið úr lífi þínu. Einbeittu þér að skírlífi. Það finnast nefnilega kostir við það, ótrúlegt en satt!

Þú ert alltaf með hreint lak á rúminu (nema þegar þú borðar uppi í rúmi sem sárabót fyrir kynlífsleysið).

Það er í lagi að vera oft með hausverk.

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að fætur, hendur og aðrir staðir á líkamanum séu órakaðir.

Þú getur gengið í sloggi nærbuxum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að einhver sjái þig í þeim. Þú sparar einnig peninga, þar sem þú sleppur við að kaupa “sexý” undirföt.

Þú sleppur við að þurfa að svara spurningum eins og;”fannst þér þetta jafngott og mér?” eða “fannst þú mikið fyrir honum?”

Þú sleppur við athugasemdir þegar þú ert á blæðingum

Þú sleppur við að hafa áhyggjur af því hvort að þú sért betri í rúminu en fyrri kærastan.

Þú sleppur við að hafa áhyggjur af kynsjúkdómum.

Þú sparar peninga, þar sem þú þarft ekki á getnaðarvörnum að halda.

Þú verður gáfaðari en aðrir, þar sem þú nærð að lesa mikið af blöðum og bókum fyrir svefninn.

jamm...

ég kenndi í fjóra tíma í dag og oh my god hvað ég er að fíla þetta. Hef nú lokið starfsþjálfun þessarar annar en á eftir að fylgjast með Moniku kenna á föstudaginn og svo langar mig að fara í fleiri áheyrnir líka áður en önninni lýkur. Djö.. þetta er svo gaman. Ég held að þetta sé málið!

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Vinna, vinna, vinna...

þrífa, hugsa um börnin, ryksuga, hugsa um kettina, læra, búa til kennsluáætlanir, kennsluefni, etc etc.
Gaman!

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Gott er að geta talað við...

einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur getur gert kraftaverk.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

...?

Æ mig auma.
Besti vinur minn þessa dagana er íbúfenið þar sem að gigtin er farin að segja allmikið til sín í öllu álaginu sem fylgir því að vera í kennslufræði. Ég er nú ýmsu vön en þetta er bara fáránlegt. Það er verið að bjóða upp á eins árs heildstætt (að ég hélt) starfsréttindanám og það ætti að vera höfuðatriði að hafa skipulagið í lagi og misbjóða ekki nemendum sínum sem flestir eru búnir að slíta unglíngsskónum og eru jafnvel með fjölskyldu. Auðvitað eru einhverjir að vinna en hmm, hmm, þeir eiga ekki að kvarta því að þetta er fullt nám og ef þú ætlar að vinna með því þá er það þitt mál. Málið er hinsvegar það að álagið í þessu námi þyrfti ekki að vera svo mikið ef það væri bara almennilega undirbúið og skipulagt af kennurum sem eru einmitt að kenna okkur að skipuleggja og undirbúa kennslu.

Ég veit líka að líklega réði ég betur við þetta ef ég þjáðist ekki af langvinnum sjúkdómi og væri 100% hraust og það með tvö börn og kannski hefði ég átt að reyna að taka þetta á tveimur árum í stað eins eða eitthvað slíkt en ég hef ekki efni á því. Námslánakerfið, eins og það er í dag, býður manni ekki upp á lán nema maður skili 75% árangri = "Námsmaður þarf að ljúka í það minnsta 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins til þess að fá námslán." (lin.is) Ég hefði getað tekið annað hvort 10 eða 15 einingar á þessari önn. Ég valdi að taka 15 þvi 10 fylla ekki 75%, því 75% af 15 einingum er 11,25 einingar!!! En nú er ég eiginlega bara að tuða.

Mér finnst mjög gaman í skólanum og tel að ég sé komin á rétta hillu, þrátt fyrir álagið! Svo er ég reyndar að krota fyrir Stúdentablaðið með og það auðvitað er ekki til að minnka álagið. Enda er ég aðallega að því svo ég nái að útskrifast úr hagnýtri fjölmiðlun annað hvort í febrúar eða júní. Spurning að taka útskriftirnar saman! Ekki það að ég sé ekkert að því að útskrifast bæði í febrúar og júní. Konu vantar alltaf tilefni til að fagna :o)

Já og minna en 7 vikur til jóla!

laugardagur, nóvember 08, 2003

Allt gekk vel!

Góðann daginn, allt gekk vel í tengslum við kennsluna. Ég kenndi í fyrsta sinn á fimmtudaginn og þrátt fyrir kvíða, stress og svoleiðis gekk bara vel. Ég gerði náttúrulega smá mistök, talaði of hratt í byrjun og svona en svo bara róaðist ég og allt gekk betur. Enda tíminn 80 mínútur!! Í gær kenndi ég svo sama efni aftur en öðrum bekk og það gekk mun betur þrátt fyrir að bekkurinn væri almennt erfiðari. Bæði var hann mun fjölmennari, mun öruggari með sig, mun meira skvaldur og svo var að auki vont veður og ekki hægt að hafa opna glugga OG þetta var síðasti tími á föstudegi. Leiðbeinandinn minn sagði að miðað við allar aðstæður hafi ég staðið mig ótrúlega vel. Svo voru þau afskaplega sæt og klöppuðu fyrir mér í lokin.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Do I have to speak English???

Það er komið að því. Ekki á morgun heldur hinn mun ég kenna heilum bekk í 80 mínútur! Smá hnútur í maganum en eiginlega bara yfir því að ég verð að tala ensku allan tímann. Ég meina ég er alveg góð í ensku en er bara ekki vön að kenna fullt af íslenskum krökkum á tungumálinu. Auðvitað á mér eftir að ganga vel og ef ekki þá læri ég bara af því. Ég kenni svo sama efnið aftur á föstudaginn og hef þá tækifæri til að læra af mistökunum. Annars er bara brjálað að gera og mér til mikillar ánægju eru bara fjórar vikur eftir af kennslu en það verða líka geðveikar fjórar vikur.
Þetta kallar á glasalyftingar á föstudaginn, best að fara varlega í þær en kennaraefnin ætla að skella sér á djammið svo það náist einu sinni fyrir jól. Svo er ég temmilega klikkuð til að ætla að skella mér á Matrix-maraþon á laugardaginn með Elfi vinkonu. Vona að gigtin þoli það.

Svo verður spennandi að fylgjast með örlögum DV á næstu dögum!