laugardagur, ágúst 30, 2003

True, true!

Langt síðan ég hef tekið próf og þökk sé Helgu þá tók ég þetta.
Skondið en doldið til í þessu.

hedwig and the angry inch
Your romance is more of a love that needs to bloom
within, just like Hedwig of Hedwig and the
Angry Inch. The film features an East German
transsexual who is seeking her "other
half" after constant betrayal. You must
love yourself before you can need another.
You're starting to realize this, along with the
fact that you don't need a significant other to
be a complete person. Your "other
half" has been inside you all along.


What Romance Movie Best Represents Your Love Life?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Media frenzy...

Mikið er það merkilegt að Stöð 2 skuli gera í því að losa sig við frægasta fjölmiðlafólkið sitt (kannski umdeildasta líka?). Spurning hvort þetta sé jákvæð eða neikvæð þróun. Kannski þýðir þetta að hinir sem minna mega sín komast loksins að eða kannski þýðir þetta að frægasta fjölmiðlafólkið á Stöð 2 hafi verið orðið kröfuhart og ósamvinnuþýtt. Ég þekki það ekki og treysti yfirleitt ekki kjaftasögum of vel en ég hef heyrt ýmsu fleygt. Ég kann vel að meta allt þetta fjölmiðlafólk og hlakka til að sjá hvar það skýtur upp kollinum, annars staðar en á Ölstofunni náttúrulega.

Ég fór í viðtal í gær vegna kennslufræðinnar og komst að því um leið að ég get aðeins verið í kennslufræðinni í vetur og MA námið verður því að bíða. Mér datt þess vegna í hug að fara á þessa ágætu síðu og skoða hvað er í boði. Það er svo sem ekkert sem ætti að stoppa mig í því að skella mér í árs nám til Edinborgar eða hvað?
Það er allavega heilt ár þangað til og aldrei að vita hvað verður.

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Í skólanum, í skólanum...

er skemmtilegt að vera.

Ég var andvaka í nótt til fjögur og mókti svo til að verða ellefu.
Ég sem ætlaði snemma á fætur með Unni, en ég vaknaði klukkan hálfsjö við það að klukkan hennar hringdi og aftur rúmlega sjö við það að vinkona hennar hringdi. Spennan var þvílík við að mæta aftur í skólann. Sem btw er ekki tilbúin einu sinni. En maður huggar sig við það að það er þó verið að vinna í að bæta skólann og fljótlega verður allt tilbúið.
Spennan er mest yfir þvi að í dag er enska á stundatöflunni. Minn skóli byrjar svo á mánudaginn. Held að ég sé ekkert minna spennt. Gæti verið ástæðan fyrir andvöku minni.

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Eftir mjög svo þéttskipaða dagskrá um helgina er ég þreytt.

Jafnvel pínkulítið sorgmædd, en einnig full eftirvæntingar og léttis.

Sumarið er búið...

Haustið með nýjum verkefnum og tækifærum tekur við.
Myrkrið fyllir kvöldin.
Kertaljós og rauðvín, bókalestur verður auðveldari.
Kúri upp í rúmi.
Nýt þess að þurfa ekkert að fara.
Ekkert að gera.
Ein með sjálfri mér.
Ég hef valið.

Og ég hef valdið!

laugardagur, ágúst 23, 2003

I feel the earth move under my feet...

ég skellti mér á pöbbarölt með Siggudís fyrr í kvöld og það var nú skondið. Við byrjuðum á að kíkja á Ölstofuna og þar var óvanaleg vond stybba svo við ákváðum að fara á óhefðbundnari staði og byrjuðum á að kíkja á Grandrokk þar sem við hittum fyrir þá Skúla Gautason og Didda (Friðþjóf) en þeir eru meðlimir Sniglabandsins og gamlir vinir mínir síðan að ég var þeirra grúppía. Þar fengum við okkur í eitt glas/flösku hvor og spjölluðum lengi við þá. Röltum svo á milli ýmissa staða svo sem Celtic Cross, Nelly's, Næsta bar, Victor, Dubliners og enduðum á hollenska barnum sem ég man ekki hvað heitir en má eflaust sjá rétt nafn á blogginu hennar Siggu. Þar fengum við okkur annan drykk og höfðum okkar einka trúbador, hann Danna. Hann kunni ekki mörg lög en tók Kylie mjög vel. Rétt á meðan að Siggadís skellti sér á salernið þá tók húsið til við að skjálfa og svo mikið að stóllinn minn færðist um einhverja sentimetra. Sigga greyið sat ein á klóinu rétt á meðan og hefur eflaust talið að bunan hjá henni hafi verið einum of öflug. En nei jarðskjálfti var það. Og samkvæmt Rás 2 þá var hann rúmlega 5 á Richter. Alltaf gaman að þessu. Mér verður hugsað til hans Magnúsar (ef ég man nafnið hans rétt) sem var með mér á Hellnum um verslunarmannahelgina. En hann vill meina að samkvæmt allskyns spám séu stórir hlutir að fara að gerast á Reykjanesinu. Hann var svei mér furðulegur gaur reyndar en áhugaverður um leið. Hver veit nema það endi með að Reykjanesið klofni frá meginlandinu. Þá þarf maður að taka ferju til að komast í Flugstöðina ; ) Hmmm, ég er kannski búin að drekka oggulítið of mikið hmm. hmm. Tíhí. En gaman var í kvöld. Ojá. Sá kunningja minn á Ölstofunni á leiðinni heim vera að höstla einhverja dömu. Nefnum engin nöfn. Fannst það bara fyndið. En aftur kannski búin að drekka oggulítið of mikið. Og þó alls ekki. Er bara hænuhaus. Ætla víst að kíkja út annað kvöld líka með Ástu vinkonu. ;o)
Ætti kannski að hætta að hlusta á Rás 2 og fara að lúlla í hausinn á mér. Er búin að lofast til að hjálpa kunningjakonu minni og maka hennar að flytja á morgun. Mjög spennó. En fyrst ætla ég að heyra hvað Almannavarnir segja. Djö ... mig vanta einhvern til að kúra með. hí hí.

fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Enn einum áfanga náð

Í dag, fimmtudag, er stór dagur. Móðir mín snýr aftur til starfa eftir 10 mánaða veikindafrí. Hún hefur staðið sig hetjulega í baráttunni við brjóstakrabbamein og, eins og útlitið er í dag, haft sigur. Því miður er aldrei hægt að segja til um slíkt endanlega en það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Hún á líka örugglega eftir að hressast enn hraðar við að mæta til vinnu og umgangast samstarfsfólkið og njóta útiverunnar, hún starfar hjá Íslandsspósti.

Ég hef ekki horft á sjónvarp í allt sumar fyrir utan að ég ákvað að fylgjast með hinum umræddu dönsku sjónvarpsþáttum Nikolaj og Julie sem eru endursýndir á miðvikudögum. Ég sé ekki eftir því. Þetta er stórvandaðir þættir og skemmtilegir að auki sem taka á samskiptum kynjanna. Líta á hvað gerist þegar að sambandi lýkur hjá aðalpersónunum en sýna jafnframt aukapersónur sem eiga annars vegar í nýju sambandi og hinsvegar í stöðugu og öruggu sambandi. Eins og oft með efni sem maður les eða horfi á þá spegla ég mig í því sem gerist í þáttunum sérstaklega í ljósi þess að brátt verða tvö ár síðan ég skildi. Þetta sumar hefur verið einstakt að því leyti að ég komst að því um miðjan júlí að ég er búin að jafna mig fullkomlega á mínum skilnaði. Ég hef náð þeim árangri að vera hamingjusöm og ánægð ein. Það er náttúrulega galdurinn. Það gerir enginn annar mann hamingjusaman. Og í leiðinni getur eiginlega enginn gert mann óhamingjusaman heldur.

Talandi um áfanga. Þann 13. ágúst sl. náði ég þeim áfanga að vera reyklaus í 2 ár. Ég verð að viðurkenna að það reykleysi nær aðeins yfir edrú stundir en ég á það til eftir nokkur glös að asnast til að kveikja mér í sígarettu en það hefur ekki komið að sök enn.

Ég er nú ánægður eigandi nýs farsíma og uppþvottavélin náði sér á eigin spýtur. Það þurfti bara að leyfa henni að eiga sig í nokkra daga.
Brjálæðislega ánægð einnig með allar bíómyndirnar mínar og NortonAntivirus2003 sem er alveg að bjarga mér í vírusæði síðustu daga.
Það er bara ekkert sem gerir mig óánægða.

þriðjudagur, ágúst 19, 2003

Tuesday blues.

Það virðist vera algengast að ég bloggi á þriðjudögum þessar síðustu vikur. Ég hef haft í svo mörgu að snúast að enginn tími hefur gefist til að tjá neinar hugsanir að ráði og er þetta engin undantekning. Við ætlum að halda í síðasta ferðalag sumarsins núna eftir smá stund. Unnur er að fara til pabba síns í heimsókn fram á sunnudag og svo skemmtilega vill til að vinkona mín fékk hús á Kirkjubæjarklaustri eina nótt svo að í stað þess að Unnur taki rútuna þá snúum við þessu upp í smá ferðalag.
Það er svo skemmtilegt stundum þegar öll tæki taka upp á að bila á sama tíma. Ekki nóg með það að handfrjálsi heimasíminn minn hafi loks gefið endanlega upp öndina á fimmtudaginn og ég þurft að fjárfesta í nýjum heldur bilaði uppþvottavélin á föstudaginn og ég þurfti að vaska upp allt sem í henni var og þegar maður á ekki uppþvottagrind er það allt annað en gaman. Við erum að tala um tveggja tíma uppvask (með pásum). Nú á laugardaginn kemur svo í ljós að gemsinn hennar Unnar er hættur að virka. Bæði loftnet og batterí búið að vera. Ég hugsa mér náttúrulega gott til glóðarinnar og kaupi mér nýjan síma og hún fær minn gamla eins og alltaf. Fín endurnýting það.
Óneitanlega eru þetta fjárútlát sem ég má þó ekki við þessa dagana.
Jæja, börnin bíða óþolinmóð. Við ætlum í Bóksöluna að versla inn fyrir skólann hennar Unnar. Það er setning á mánudaginn en hún vill vera tilbúin í dag. Svo er að kaupa nýjan síma og svo að halda austur.
Kem aftur á morgun!

laugardagur, ágúst 16, 2003

Menningarsjokk?!

Þá er menningarmaraþonið hafið og ég sit hér heima og hlusta á harmonikkuspil í útvarpinu. Stefnan verður tekin í miðbæ Reykjavíkur þegar líða tekur á daginn en dagurinn fer í að halda áfram að gera fínt hér heima. Það nefnilega er allt að gerast þó það gerist hægt.
Ég er búin að vera afskaplega upptekin síðustu daga við að hitta vini sem búa alla jafna erlendis eða úti á landi og hefur það verið einstaklega ánægjulegt. Nú er svo komið að allir eru farnir til síns heima, ég er hætt að passa Daníel, og lífið fer að falla í rútínu. Sem verður ljúft. Dóttir mín byrjar í fimmta bekk, vá, hún er orðinn forstigs-unglingur (hí hí Siggadís) og það ekkert smá. En fyrst er sveitaferð og framundan er löng barnlaus helgi. Hrædd um að ég verði að gera eitthvað gott og notalegt úr henni. Ég skulda meðal annars alltaf einum góðum vini að bjóða honum út að borða á Tapas-bar! Hver veit nema maður standi við það. Lífið er svo ljúft.

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Loksins!

Skilaði inn atvinnuumsókn í dag!
Og hafði það af að tengja skannann minn og skannaði inn fyrstu myndina áðan. Alveg að virka ferlega vel.
Hélt frábærlega vel heppnað matarboð fyrr í kvöld sem virkaði einnig mjög vel, þó ég segi sjálf frá og gestirnir yfirgáfu höllina mína saddir og ánægðir. Gestirnir voru Bryndís (29)*, Peter (33), Alexander (9) og Andrea (7) frá Svíaríki en í kvöld hófst einnig opinber söfnun litlu fjölskyldunnar minnar til að fara yfir til þeirra næsta sumar. Unnur ætlaði ekki að láta tilleiðast þó fyrr en ég benti henni á að til að fara til Halmstad í Svíþjóð þurfi að fljúga til Kaupmannahafnar. Það er hennar æðsti draumur að fara til Danmerkur (næst á eftir Spáni sem hún sér enn í hillingum og talar mikið um síðan við vorum í Madrid hérna um árið) og því er hafin söfnun.
Andrea sem er búin að æfa sig mikið í íslensku til að geta talað við okkur varð alveg hissa á svipinn í kvöld þegar hún heyrði mig segja í símann að ég væri með svo mikið af svíum á heimilinu að "nu prätta jäg bara svenska!" hvernig sem það er skrifað! Hún horfði á mig stórum augum og sagði svo "Þú talar sænsku!?" Og ég varð að segja "nej, jäg prätta inte svenska!" en lofaði að kunna meiri sænsku þegar ég kæmi að heimsækja hana. Það er náttúrulega til skammar að vera ekki einu sinni mellufær á einu norðurlandamáli. Ég er fín að lesa flest norðurlandamál svona meðan það er ekki mikið flóknara en leiðbeiningar á sjampói eða rómans eftir Hanne-Vibeke Holst.

Vá, hvað ég er ánægð! :o)

*aldur í svigum ala Séð og heyrt

mánudagur, ágúst 11, 2003

klukkan er...

10.30 og ég er búin að baka brauð, búa um, taka á móti Daníel og borða morgunmat. Á bara eftir að fá mér morgunkaffið! Ég er að breytast aftur í húsmóður, hjálpi mér allir heilagir. Ég horfi meira að segja húsmóðurlega á rauð og þrútin rifsberin sem blasa við útum gluggann hjá mér og hugsa um að sulta. Man síðan að ógurlega mikið magn af sykri fer í sultu og man um leið að í dag er fyrsti dagur í að taka á mataræðinu svo ég losni nú við stirðleika og gigtareinkenni. Man líka að í runnanum þar sem rifsberin eru er svakalega mikið af geitungum og ég er skíthrædd við þá. Sonur vinkonu minnar varð fyrir geitungaárás í fyrri viku og var stunginn tvisvar í höfuðið. Hann var ekki par ánægður með það en trixið er víst að setja kaldar hráar kartöflusneiðar á stungurnar. Það vissi húsmóðirin vinkona mín.

Ég ákvað að sækja um vinnu fyrir veturinn, starf sem ég veit að ég yrði góð í og sem að kemur menntun minni við og ég varð ægilega spennt yfir þessu öllu saman. Setti saman stundaskrána mína í gær miðað við núverandi drög og hún kemur bara ágætlega út. Þá er bara að bíða og sjá hvað miklar breytingar verða gerðar áður en skólinn hefst. Efast um að þær verði miklar þar sem námið er mjög fastmótað. Svo er bara spurning um hvað verður úr þessu öllu hjá mér.

Átti góða helgi. Fór með dóttur minni, vinkonu hennar og Ástu Sól vinkonu í bíó á föstudaginn klukkan sex. Fórum að sjá fíflið hann Jim Carrey í Bruce Almighty. Okkur leiddist ekki neitt svakalega á myndinni en þetta er náttúrulega engin klassík: Bara svona pjúra "slap-stick" að vissu leyti. Jim má eiga það að mér fannst hann ekki fara yfir strikið í kjánalátunum og myndin slapp líka við að fara yfir strikið í helgislepjunni. Átti von á einhverju álíka eins og endinum á The Majestic þar sem mér varð nærri óglatt yfir ameríska vælinu í þeim.

Djamm á laugardaginn. Gaman. Alltof troðið í bænum. Snemma heim :)

föstudagur, ágúst 08, 2003

Brain dead...

svona andlegar fullnægingar virðast taka úr manni allt þrek. Bryndís vinkona er á landinu og hún og fjölskyldan hennar heimsóttu okkur á mánudagskvöldið. Þriðjudagurinn fór í að vera latur með börnunum og um kvöldið hjálpaði ég Írisi vinkonu að setja saman IKEA mubblur. Á miðvikudag passaði ég Daníel Loga, 8 mánaða, í smá tíma og bardúsaði svo ýmislegt fram á kvöld og í gær hitti ég Bryndísi og co og varð seinna um daginn dökkhærð aftur og Unnur fékk topp. Í dag passaði ég Daníel Loga einnig og mun passa hann þrjá daga í næstu viku... lífið er semsagt bara við það sama en þó ekki. Alltaf nóg að gera en þó ekki. Djamm á morgun, hef ekki djammað síðan laugardaginn sem ég kom aftur frá Ed. en það var 19. júlí. Ekki svo langt síðan reyndar þegar maður hugsar um það. Ég hef heldur aldrei verið neitt geggjaður djammari hvort eð er.

þriðjudagur, ágúst 05, 2003

andlega fullnægð

eftir frábæra helgi...

föstudagur, ágúst 01, 2003

Verslunarmannahelgin framundan...

og ég segi bara góða helgi. Veðurspáin er góð fyrir Snæfellsnesið, en Hellnar eru staðsettar þar undir jökli.
Ég fékk frábærar heimsóknir í gær. Gamlir og góðir vinir sem var gaman að sjá. Það er víst þannig að þó ýmislegt gangi á í samskiptum við fólk þá eru sumir þannig að manni hættir aldrei að þykja vænt um þá. Jæja, ég má ekkert vera að þessu þarf að pakka og baða og drífa mig úr bænum.

NJÓTIÐ HELGARINNAR!