mánudagur, nóvember 25, 2002

Ég hef ákveðið að hætta að blogga!
Nenni þessu ekki lengur.
Gæti veðrið verið yndislegra?
Sofa núna, læra á morgun! Viti einhver eitthvað um Íslensku friðargæsluna, tjá sig hér að neðan takk!

sunnudagur, nóvember 24, 2002

Frábært, æði, ég var gersamlega að "eipa" hérna áðan og ákvað að hringja í mína elskulegu barnapíu, hana Bettý, og hún kom og reddaði mér og ég skellti mér til Viktors og tók viðtal við hann OG skemmti mér konunglega. OG fékk gott kaffi og nammi með því!
Það verður að segjast að það sé með ólíkindum að þessi skólaönn sé nánast búin!
Og mín bara búin að standa sig snilldarvel miðað við veikindi mín og annarra, brilliant!
Ég vil þakka Lindu, Dísu, Jóhönnu og Elfi og öllum hinum sem hafi stutt mig og.. nei bara að djóka, best að
geyma þakkirnar - IT AINT OVER 'TILL IT'S OVER. Tí hí! ; )
Harry Potter var frábær! Myndin það er að segja. Eina sem má út á hana setja er að hún er í sýningu 158 mínútur en það virtist ekki angra minn litla 3 1/2 árs gutta. Hann skemmti sér konunglega þrátt fyrir að halda reglulega fyrir eyrun vegna hávaða og svo nötraði hann af geðshræringu í lokabardaganum - en neitaði að fara fram og fannst frábært! Risaköngulær og risaslöngur voru sko eitthvað fyrir hann. Unnur Helga var náttúrulega í sjöunda himni enda kunni hún bókina nánast utan af og fannst þetta alger snilld. ALGER SNILLD! eða eins og einhverjir myndu segja GARGANDI SNILLD. Þetta var frábært og myndin margfalt magnaðri en sú fyrsta. Kenneth Branagh fór líka á kostum sem og allir aðrir leikarar.

Dagurinn var stórkostlegur í alla staði fyrir okkur öll enda ég í stuði og þar sem klukkan var orðin sex þegar myndin var búin, hún hófst náttúrulega klukkan þrjú, þá var bara farið og ekið og tekið og kíkt á Laugaveginn að sjá jólaljósin. Svo er veðrið yndislegt!

Ég þarf núna að halda áfram að skrifa ritgerð og ég ætla að reyna að klára sem mest sem fyrst því ég á inni djamm með Kára. Það var svo gaman hjá okkur síðast að við ætlum að endurtaka leikinn um leið og ég losna frá náminu (kannski fyrr he he)! Verð náttúrulega barnlaus næstu helgi!!

laugardagur, nóvember 23, 2002

Góður dagur framundan augljóslega! Veðrið enn gott og Harry Potter bíður og Kringlan reyndar líka. Best að reyna að nýta tækifærið og fara með filmur í framköllun og skoða hvað er í boði fyrir jólin... maður er víst ekki alveg laus við að vilja gefa fólki jólagjafir. Við Linda vorum í þvílíku stuði hér í gærkvöldi. Hér var talað til útlanda, brætt vax, hitað te og poppað. Larissa leit við með henni líka í smá tíma en yfirgaf okkur fyrir miðnætti. Girnilegir karlmenn fundust líka á heimasíðum og meðal annars Jonny Lee Miller og Julian McMahon. Syndin með Julian (hann leikur meðal annars í Charmed og Profiler) er sú að hann er miklu flottari í mynd heldur en á mynd ef fólk getur skilið það. Hann er svo mikil fyrirsæta á myndunum. Kræstur. Best að benda á að Jonny litli var giftur Angelinu Jolie og var í bíómynd í gærkvöldi, með sama teymi og gerði bíómyndina The Final Cut, sem heitir Love, Honour and Obey.
Þeir redduðu algerlega kvöldinu.

föstudagur, nóvember 22, 2002

Mikið er lífið gott! Er það ekki?
Frábært hvað svona gott veður getur haft góð áhrif á mann, kallar á að maður halda niður í bæ og fái sér kaffi. Reyndar erum við gellurnar í hagnýtu að fara að hittast á eftir með barnaskarann. Verður forvitnilegt að sjá hversu fjölmennt verður. Við eigum nefnilega flestar börn þó ekki séu nema tvær með fleiri en eitt... en nóg um það. Harry Potter hefur óskað eftir nærveru minni á morgun. Unnur Helga krefst þess að sjá myndina um helgina og tel ég það alveg við hæfi þar sem hún er mikill aðdáandi.
Svo sá ég líka að það verða aðrir Nick Cave tónleikar. Spurning hvort maður leggur á sig að standa í biðröð aftur????

Það kemur í ljós. Miðarnir verða ekki seldir fyrr en á þriðjudaginn næsta svo nægur tími til að hugsa það fram og til baka.

fimmtudagur, nóvember 21, 2002

Ég fann þetta í gamalli Viku:

VINIR OG KUNNINGJAR

Kunninginn segir til nafns þegar hann hringir. Vinurinn þarf þess ekki. (fer eftir því hvernig maður er stemmdur?)
Kunninginn byrjar á því að segja frá lífi sínu í smáatriðum. Vinurinn byrjar á að spyrja hvernig þú hafir það.
Kunninginn heldur að umkvartanir þínar séu nýjar af nálinni. Vinurinn veit að þú hefur tönnlast á þessu í 14 ár og segir þér að gera nú eitthvað í málinu.
Kunninginn hefur aldrei séð þig fella tár. Vinurinn er með axlir sínar blautar af tárum þínum.
Kunninginn veit ekki hvað foreldrar þínir heita fullu nafni. Vinurinn er með símanúmer foreldra þinna í dagbókinni sinni.
Kunninginn veit lítið um fjölskyldu þína. Vinurinn veit allt um heilsufar, mataræði og hjónabandserfiðleika hvers einasta ættingja þíns.
Kunninginn færir þér vínflösku þegar þú býður honum í mat. Vinurinn mætir snemma til að hjálpa þér að elda og verður eftir til að hjálpa þér með uppvaskið.
Kunninginn hringir í þig klukkan tíu að kvöldi til að spjalla. Vinurinn veit að þér er illa við að fólk hringi eftir klukkan níu á kvöldin.
Kunninginn vildi gjarnan vita meira um ástamál þín. Vinurinn veit svo mikið um þau að hann gæti beitt þig fjárkúgun.
Kunninginn hegðar sér eins og gestur á heimili þínu. Vinurinn opnar ísskápinn, setur fæturna upp í sófann, svarar maka þínum fullum hálsi og hastar á börnin þín.
Kunninginn álítur að vinskap ykkar sé lokið ef þið lendið í rifrildi. Vinurinn veit að rifrildi innsiglar vináttuna.

Skemmtileg pæling! Full einfölduð samt!

miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Sá í Morgunblaðinu að enn einn af þeim sem ég umgekkst sem unglingur er farin yfir. Ég kveð Egil hér með. Hef ekkert heyrt af honum lengi en það er alltaf leitt þegar fólk deyr ungt er það ekki.
Hvað er fólk að pæla!
Það hlaut að koma að því! Ég er svo fátæk þessa dagana að ég hef ekki leyft mér að fara í litun eins oft og ég vildi og í morgun þegar ég var að greiða mér sá ég að nokkur hár í rótinni eru óvanalega ljós. Enda rótin nú orðin alveg 1 1/2 cm. Spurning hvort maður fari út í að lýsa sig upp bara svo þessi hvítu/gráu/silfruðu whatever hár sjáist síður?

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Hvað stendur maður lengi í biðröð eftir einhverju sem maður vill? Þangað til að maður er alveg viss um að maður fái ekki það sem maður vill. Meðan enginn kemur út og segir að það sé uppselt þá á maður von um að fá eitthvað, ekki satt?

mánudagur, nóvember 18, 2002

Jæja, heimsótti hina yndislegu kasóléttu vinkonu mína hana Jóhönnu Bóel í dag. Skrýtið hvað hún er allt í einu svakalega mikil. En yndisleg samt að sjálfsögðu. Dóttir hennar og frænka mín eru vinkonur en eitthvað er vináttan í hættu þar sem frænka mín býr hjá mjög veikri móður sinni (andlega) og þjáist fyrir það. Virðist orðin góð í að henda fólki svo það geti ekki hent henni. Hún er bara 13 ára. Mér varð hugsað til konu sem er sökuð um sama hlut. Að hleypa fólki ekki að sér. Eiga erfitt með að kynnast fólki etc.etc. já sú kona er ég. Það er auðvitað betra að hætta sér ekki út í djúpu laugina ef möguleiki er á að maður drukkni! En auðvitað eru allar líkur á að maður skemmti sér bara konunglega þar. Og ég hef farið batnandi hvað þetta varðar. Ég hef tildæmis ekki þörf fyrir að öllum líki vel við mig. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ómögulegt. Exið mitt gerði það iðulega þegar við fórum út að láta eins og við værum ekki saman. Ég vildi kannski ekki hanga í honum en finnst alveg lágmarkskurteisi að skilja fólk ekki bara eftir eitt. Hann er svo ófeimin og algerlega sama um hvað öðrum finnst um hann og lætur bara vaða. Ég fílaði þetta við hann upp að vissu marki. Jú mér finnst aðlaðandi menn sem eru sjálfsöruggir og ófeimnir við að tala við fólk en þeir mega bara ekki gleyma að ég er líka til. Ég vildi gjarna fara meira út eins og ég sagði í gær en því miður virðist ég hafa verið einum of dugleg að halda vörninni uppi því mér bjóðast ekki of mörg tækifæri til. Það er ekki ætlun mín að halda fólki í fjarlægð. Ég er til að mynda alls ekki feimin. Þetta er bara svona ævaforn vörn hjá mér síðan ég var lítil og mátti aldrei vera með þegar hinir fóru út að leika. Því ég var yngri en hinar stelpurnar og aðeins nógu góð þegar engir aðrir voru á lausu. Það er ótrúlega skrýtið hvað svona situr í manni.
Var ekki alveg tilbúin að fara að sofa svo ég fór að reyna að finna útúr því afhverju gamla bloggið mitt finnst ekki ... fann ekki útúr því.
En gat bjargað því yfir í word skjal svo ég á það allavega til fyrir mig. Eins gott að enginn annar geti lesið þetta kjaftæði.
En nú er amilínið vonandi farið að virka og tími til að kúra. Átti svaka gott spjall við exið áðan. Hann er betri vinur en sambýlismaður það er á hreinu.
Við ræddum einmanaleikann og hvort mögulegt væri að maður misskildi tilfinningar þegar maður er einmana. En ég held að ég sé búin að afgreiða það alveg.
Ef svo væri þá ætti ég ekkert í vandræðum með að finna mér bara einhvern mann til að losa mig við einmanaleikann. Það er líka miklu auðveldar að jafna sig á tilfinningum ef manni finnst maður vera búin að reyna. Eins og með mig og exið. Við vorum svo sannarlega búin að rembast alveg svakalega við að láta hlutina ganga og því var auðveldara að sætta sig við að hlutirnir væru búnir. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að ég þarf að temja mér ákveðna siði eins og þolinmæði og jákvæðni og bla bla ... vandamálið mitt er að það er svo erfitt þegar maður er alltaf svona þreyttur að takast á við svoleiðis nokk. En þolinmæði er ekki og hefur aldrei verið mín sterka hlið. Hins vegar er ég ferlega sátt við hvað ég er búin að vera dugleg í mataræðinu... ég tala nú ekki um kókið og gula M&Mið sem ég datt í í kvöld.
En rúmið kallar á mig og svo er bara vinna vinna vinna framundan. Plís endilega kíkja í kaffi og veita mér andlega upplyftingu annars lagið. Takk.

sunnudagur, nóvember 17, 2002

á ég að neimdroppa smá, gaman gaman, Finnur er í sjónvarpinu hjá Agli - alltaf gaman að þekkja fólk í sjónvarpinu!
Ég hitti vin minn í dag og við ræddum mikið um vináttuna meðal annars og erfiðleika fólks við að koma hreint fram. Ég er sannfærð um það að ég vil eiga fáa en góða vini. Fólk sem ég get reitt mig á og getur reitt sig á mig. Ég og Viktor, sá sem ég hitti í dag, ræddum meðal annars það hvernig lífi við vildum lifa og vorum nokkuð sammála um það að okkur finnst báðum mjög innantómt að djamma linnulaust enda gerum við það hvorugt. Eftir á fór ég að hugsa um þá sem eru að djamma mikið og fór að spá hvort ég væri þar með að dæma þá. Niðurstaðan var nei. Ég er viss um það að ef mér stæði til boða að djamma meira en ég gerði þá myndi ég gera það. Málið er að ég á enga vini á djamminu, allavega ekki vini sem bjóða mér með, og allir mínir vinir eru uppteknir í að vera fullorðnir með ábyrgð á fjölskyldum, íbúðarkaupum, börnum og mökum. Mér leiðist oft alveg rosalega um helgar og vildi gjarna fara út að skemmta mér og hitta fólk EN ég fer ekki ein út að skemmta mér. Ekki um að ræða. Svo meðan að ég hef enga að djamma með þá hentar mér að segja að það sé ekki fýsilegt fyrir mig. Auðvitað vil ég frekar fara út að skemmta mér heldur en að sitja ein heima. Þarna er aftur þessi spurning um vináttu og kunningsskap. Ég á til að mynda alls ekki auðvelt með að kynnast fólki og á þess vegna fáa en góða vini sem eru því miður á öðru plani en ég þessa mánuðina. Áður en ég skildi var þetta ekkert vandamál. Ég átti mann sem ég eyddi tíma með. Fjölskyldu sem ég hitti reglulega og vini sem voru í sömu aðstöðu og ég sem par. Ég skildi síðan og hlakkaði til að fara að djamma og skemmta mér og allt fór á annan veg. Núna er ég hér ári seinna. Allt enn í endalausri vitleysu. Ég skil ekkert upp né niður í neinu. Ég eyddi sumrinu nánast ein og jú jú það hefur verið gaman í skólanum og nóg að gera og eitthvað djamm en mig langar samt mest af öllu í eitthvað innihaldsríkt. Mig langar ekki að kynnast fullt af nýju fólki og fylla allt af kunningjum! Ég vil eiga vini sem þekkja mig og sækjast eftir félagsskap við mig. PUNKTUR.
Hmm, ég var að lesa um Beturokk og hversu umdeild skrif hennar þykja og flissa svolítið því ég hef alltaf átt mér þann draum að verða rithöfundur, að geta skrifað en afþví að ég þori því ekki þá blogga ég bara. En ég ákvað að byrja að skrifa áðan. Og ég byrjaði að skrifa. Ég fékk hugmyndina áðan þegar ég fór út í búð og rigningin/slyddan fyrirgefið vakti upp minningu og það kom setning upp í huga minn sem ég ákvað að byrja söguna á. Þetta verður bara smásaga, kannski örsaga, en mér finnast skemmtilegar svoleiðis sögur. Eins og Lakkrísgerðin eftir Óskar Árna Óskarsson sem eru svona örsögur en flokkast sem ljóðabók. Það má líka kalla þetta minningarbrot. Ekkert ólíkt þeim sem ég skrifaði í vikunni. Setningin sem ég fékk upp í hugann áðan og sagan mín byrjar á er “stúlkan opnaði augun og áttaði sig á því að hún var að gráta.”

fimmtudagur, nóvember 14, 2002

fékk nett mömmusjokk áðan... það er vinkona mín sem á son í sama bekk og Unnur er var að spyrja mig um það varðandi bekkjarskemmtun barnanna sem er seinna í dag... hvort ég vissi hvaða hlutverk hún léki og minntist eitthvað á veitingarnar sem við eigum að koma með... við erum semsagt afskaplega nútímalegar og ætluðum bara að skella okkur í búðina og kaupa svona í plasti eitthvað ... ég hins vegar vissi ekki einu sinni hvaða hlutverk dóttir mín færi með í leikritinu "Mjallhvít og dvergarnir tólf", það má víst breyta aðeins þegar það eru 22 í bekknum, en hún semsagt leikur dýr og það er "geggjað erfitt" afþví að dýrin þurfa að vera á sviðinu allan tímann... síðan gerðist ég súpermamma og aðstoðaði dömuna við að baka Muffins dverganna sjö úr hinni stórmerku Matreiðslubók mín og Mikka... maður setti náttúrulega bökunartónlist á og Dionne Warwick sings the Bacharach & David songbook varð fyrir valinu og Unnur alveg að fíla þetta í tætlur. Takk Jonni fyrir góðan disk!
Köttur út í mýri
setti upp á sig stýri
úti er ævintýri

miðvikudagur, nóvember 13, 2002

Mér barst fyrirspurn í gestabókina mína um það hvað ég meinti með Atlavík.
Það var semsagt Atlavík sem útihátíðin var kennd við sem ég fór á þegar ég var aðeins 12 ára. Ég fór einnig á síðustu alvöru útihátíðina í Atlavík 1988 en þá fórum við Íris saman á Vopnafjörð og í Atlavík. Ég vil samt taka það fram að þetta er ekki sama Íris og ég ræddi um í tengslum við Vopnafjörð í blogginu mínu í fyrradag.

Jamm eins og ég sagði þá missti ég sakleysið á Vopnafirði. Ég byrjaði hinsvegar aðeins að reykja þar sem ég gerði aftur hlé á meðan ég lauk barnaskóla en að drekka og að ríða beið enn betri tíma. Sem betur fer!!!

þriðjudagur, nóvember 12, 2002

Atlavík!

mánudagur, nóvember 11, 2002

Var að hugsa um að tala um sumarið 1985 þegar ég var 12 ára og tapaði sakleysinu á Vopnafirði, veit ekki alveg hvað skal segja. Get þó sagt það að þetta sumar lærði ég hvað orðið brundur þýddi, þó að enn liði nokkur tími þar til ég sæi slíkan vökva. Ég lærði líka hvað bláedrú þýddi og við stelpurnar leigðum Sidney Sheldon út á Esso-stöð og horfðum á Blóðbönd í vídeóinu heima hjá ömmu og afa Írisar. Ég sá LiveAid í sjónvarpinu á Vopnafirði og Allo allo! var enn mjög vinsæll. "Listen very carefully, I will say this only once." Við fórum á bakvið kaupfélagið og reyktum og Dísa?, mig minnir að hún hafi heitið Dísa, gat farið í splitt standandi. Ég finn núna lyktina sem var niður á höfn. Það fyrsta sem ég sá þegar við keyrðum inn í bæinn voru frændur mínir tveir sem bjuggu á Vopnafirði og voru þá líklega 7 og 8 ára, þeir lágu á götunni og voru að drekka úr drullupolli. Ég var hjá bróðir hennar mömmu, honum Tedda, og konunni hans, henni Hönnu Stínu. Þau búa núna í Vestmannaeyjum. Þetta sumar fór ég líka í fyrsta sinn á útihátíð. Skrýtið það er alveg stolið úr mér hvað hún hét en hún var í Hallormsstaðaskógi. Ekki veit ég enn hvernig stóð á því að mér var hleypt þangað. Stuðmenn voru að spila. Ég var alltaf með eldri krökkum kannski var það ástæðan. Við vorum fjórar saman í tjaldi að mig minnir. Tvær sáust lítið. Man að Maggi Boggu var að spila í hljómsveitakeppninni og hljómsveitin hét Grandmaster gámur and the umpalumpas. Kalli og súkkalaðiverksmiðjan var nefnilega vinsæl teiknimyndasería byggð á sögu eftir Roal Dahl og var í sjónvarpinu á laugardögum þetta sumar. Linda Pé var ekki enn orðin ungfrú heimur og satt að segja man ég ekki eftir henni þarna. En strákar voru kenndir við móður sína. Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér um daginn þar sem stórmyndin Cujo var í sjónvarpinu en við stelpurnar vorum nefnilega of hræddar til að horfa á hana en hún var vinsæl í útláni á Esso stöðinni. Ég horfði reyndar ekki á hana núna heldur.
Urrrr, ég get ekki sofið! Ekki skrýtið að ég hafi enga stjórn á neinu þessa dagana....
svefnleysi gerir mann geðveikann!

sunnudagur, nóvember 10, 2002

ó ég fann semsagt þriðja erindið af Sofðu unga ástin mín...
dálítið írónísk síðasta setningin.

Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna
.
Ég er of þreytt til að læra en ekki nógu þreytt til að fara að sofa svo ég ligg bara hér og læt mér leiðast. Ég fór að hugsa um að fá mér popp og glápa á eitthvað... fór þá að hugsa um hvað maður getur verið skrýtinn og ég hreinlega varð að blogga um það. Sko þannig er mál með vexti að ég elska popp. Ég verð alltaf að eiga popp inn í skáp. Ekki það að ég fái mér popp á hverjum degi en mér líður betur bara með að vita að það er þarna til staðar þegar ég þarfnast þess. Ég held að svoleiðis sé ástin. Kannski svolítið ýkt myndlíking en samt. Þegar maður elskar einhvern þá vill maður vita af honum í lífi sínu, að hann sé alltaf til staðar þó hann sé ekki alltaf á staðnum. Munurinn á góðum vin og einhverjum sem maður elskar held ég líka að sé þessi. Vinir koma og fara, en þegar þeir eru hjá manni líður manni vel og það er notalegt að hittast og spjalla. Þegar maður elskar einhvern, þá fyllist hjarta manns hlýju bara við það eitt að sitja á móti henni(manneskjunni sko) og drekka kaffi, maður vakir sjálfur og horfir á hana sofa, mann langar til að snerta hana og taka utan um hana, strjúka hár hennar eða vanga, eða bara snerta handlegginn létt. Ég er ekki að tala um kynferðislega snertingu, því maður finnur þessa löngun til að snerta börnin sín líka. Að vera góður við einhvern. Bara nærveran, eins og þetta með að vita af poppinu upp í skáp, veitir manni hamingju. Þó að manneskjan fari í burtu þá veit maður að hún kemur aftur. Það eru allir hversdagslegu hlutirnir sem verða fallegir og yndislegir bara að því að maður er ástfanginn og maður veit að maður er elskaður til baka.
Versta er að þegar ekkert er til poppið líður mér illa. Spurning hvort ég myndi ekki komast yfir það með tímanum ef ég fengi ekki framar popp. Það væri erfitt í fyrstu en það vendist og fyrr en seinna væri ég kannski bara farin að eiga alltaf til kartöflustrá. Held að því sé eins farið með ástina. Ég veit samt ekki hvað gerðist ef mér byðist aftur popp?!?
Ég finn það að ég sakna þess að hafa einhvern til að fara að versla með. Ég elska mat en ég nenni ekki að elda fyrir mig eina. Jú ég á börn, en þau kunna ekki að meta mjög flókna eldamennsku og dóttir mín borðar ekki einu sinni grænmeti. HRÆÐILEGT. En ég sakna þess stundum að láta elda fyrir mig!! Það er alltof sjaldan sem mér er boðið í mat eitthvert : (

Nei nú er ég alltof þreytt og held að ég ætti að fara snemma að sofa. Nú eru Will og Grace að byrja á Skjá einum og það er skemmtilegt.
Sumarið 1984 var ég 11 ára, þetta var síðasta sumarið mitt í fullkomnu sakleysi. Í hausnum hljómar “Make Me Smile” sem Duran Duran fluttu og lagið “Seasons in the sun” og ég er stödd í Húsafelli í sumarbústað. Það getur vel verið að þessi lög hafi alls ekki hljómað þetta sumar en í myndinni í hausnum heyri ég “come back and see me, make me smile” með tilheyrandi tónlist en textinn er kannski ekki heldur réttur en ég var bara 11 ára. Ég týndi gleraugunum mínum þetta sumar, þá sá ég betur en nú. Við fórum í ferð til að skoða Surtshelli og þegar við komum út var birtan svo mikil að ég tók af mér gleraugun og lagðist í sólbað. Svo stóð ég upp og gekk í burtu og bara skildi gleraugun eftir. Það er til mynd af mér frá þessari viku og á henni ligg ég í neðri koju og er að lesa rosalega þykka bók sem hét hinu frábæra nafni “Kólumbella”. Ég er í grænum buxum sem eru ekki smekkbuxur en samt með eins og hálfgerðum axlaböndum og það er blátt inn í vösunum og svo er ég í hvítri peysu, sem gæti verið úr angóru og það eru blá blóm á henni niður aðra hliðina. Ég hef ekki skoðað þessa mynd í mörg ár en hún er alveg ljóslifandi í huga mínum. Ég var þarna með Agnesi litlu frænku og hennar fjölskyldu, Sirrý og Gunna og litla Róbert sem er núna orðin 19 ára og er ekki sérlega lítill, og Dagga systir var líka með. Bústaðurinn var alveg innst í horni og það er klettur fyrir ofan hann. Ég vildi gjarna fara þarna og leita að honum ... athuga hvort minningin er rétt. Veðrið var líka alveg yndislegt alla vikuna. Eða er það bara í minningunni líka... næsta sumar fór ég á Vopnafjörð og týndi sakleysinu.

laugardagur, nóvember 09, 2002

á ég kannski að breyta um lit?
ps. það hefur enginn kommentað á nýja útlitið! Er það neikvætt?!?
Maður getur nú verið ótrúlega ringlaður í hausnum, hamingjusamur og óhamingjusamur á sama tíma, og ruglaður í því hvað er rétt og ekki rétt. Hvernig á maður að haga sér við ákveðnar aðstæður. Það er alltaf nærtækast að sakast við aðra, þeir hefður frekar átt þetta og hitt, ef hann/hún hefði bara gert svona eða sagt svona. En ef er hættulegt orð. Maður breytir ekki því sem er orðið en maður getur haft áhrif á það sem verður ... eins og góð bæn segir:
Guð, gefðu mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt OG
VIT til að greina þar á milli.

Það er nú þetta með vitið sem er erfiðast. BROS. En þetta er satt. Maður á að fagna hverjum degi fyrir það sem hann færir manni. Fagna hverjum degi sem maður vaknar og sér ennþá, heyrir og getur hreyft sig. Fagna því að vera lifandi og finna til. Og sætta sig við að maður hefur ekki alltaf fulla stjórn á öllu. Svo ég vitni í góðan vin minn, "maður getur ekki alltaf haft stjórn á hlutunum eða hvað?"

föstudagur, nóvember 08, 2002

Núna er ég orðin rosalega reið eitthvað og skapi næst að garga!

fimmtudagur, nóvember 07, 2002

Textann hér fyrir neðan heyrði ég í flutningi Marc Almond og Páls Óskars þann 31.janúar síðast liðinn. Það var nett gaman.
Something's gotten hold of my heart - Keeping my soul and my senses a part - Something's gotten into my life - Cutting it's way through my dreams like a knife
Turning me up, and turning me down - Making me smile, and making me frown - In a world that was small - I once lived in a time that was peace and no troubles at all - But then you came my way - And a feeling unknown shook my heart, made me want you to stay - All of my nights, and all of my days - (yeah I gotta tell you now) - Something's gotten hold of my hand - Dragging my soul to a beautiful land - Yeah, something has invaded my night - Painting my sleep with a colour so bright - Changing the grey, and changing the blue - Scarlet for me, and scarlet for you
I got to know if this is the real thing - I got to know it's making my heart sing - Wo-hoo-o-ye-e-e-e-e e - You smile and I am lost for a lifetime - Each minute spent with you is the right time - Every hour, every day - You touch me and my mind goes astray, yeah - Baby, baby
Something's gotten hold of my hand - Dragging my soul to a beautiful land - Something has invaded my night - Painting my sleep with a colour so bright - Changing the grey, and changing the blue - Scarlet for me, and scarlet for you

Þann 26.október síðastliðinn var ég búin að búa ein í heilt ár. Það er ótrúlegt að hugsa til þess því það var rosalegt atriði fyrir mig að vera ein í eitt ár. Og ég sé ekki eftir því þrátt fyrir að hafa þurft að færa ákveðnar fórnir. Ég upplifði mig eitthvað svo ferlega hamingjusama í kvöld. Ég var semsagt á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur og það var einhvernveginn bæði hundleiðinlegt og skemmtilegt... ég tók viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og Guðlaug Þór og á reyndar að vera að skrifa greinina núna en er einhvernveginn ekki að finna mig í því alveg strax en það kemur. En allavega þegar ég labbaði útúr Ráðhúsinu rétt fyrir klukkan 9 í kvöld þá var alveg yndislegt veður og ég var alveg örmagna af þreytu og hamingjusöm!!! Þrátt fyrir allt þá upplifði ég hamingju bara þarna í smástund... ég labbaði aðeins um bæinn áður en ég fór að sækja Óðin og ég andvarpa bara.
Mér varð líka hugsað til þess hversu fáránlegar tilfinningar manns geta verið. Ég hef til dæmis aldrei verið sérlega afbrýðisöm manneskja en nú nýverið upplifði ég alveg hrikalega afbrýðisemi og mikið rosalega var það óþægilegt en það sannaði líka svolítið fyrir mér. Ég get ekki verið vinur manns sem ég ber tilfinningar til því ég þoli það ekki að vera bara vinur... því er ég hamingjusöm núna ... ég er hamingjusöm með það að eiga aldrei eftir að vera vinur manns sem ég er hrifin af en ég ætla líka ekki að reyna að hafa hann sem hluta af lífi mínu því þá verð ég óhamingjusöm. Með því að útiloka hann get ég haldið áfram. Þetta er svolítið eins og að ætla að hætta að borða eitthvað sem manni þykir gott, þú verður að forðast fæðuna og ekki velta þér upp úr henni. Svo að með tímanum hættir manni að finnast fæðan góð og með tímanum lognast tilfinningar manns útaf. Vonandi. En til þess að eiga möguleika á að halda áfram verður maður að gera upp og halda áfram. Eins og ég sagði við vin minn á MSN hérna um kvöldið, þá er ég alveg handviss um að hamingjan bíður mín handan við hornið og þess vegna verð ég að hætta að spóla í sama farinu og halda áfram. Auðvitað er ég hundfúl yfir þessu líka en ég ætla ekki að sjá öðrum fyrir egótrippi, þá er ég að sýna sjálfri mér óvirðingu. Djöfull get ég pælt í þessum málum maður en það er líka ótrúlegt að á þessu rétt rúma ári síðan ég skildi er ég búin að fara í gegnum annað eins.

En eins og ég fann út, og bloggaði um á sunnudaginn, þá langar mig að eignast hugaðan mann, mann sem þorir að takast á við lífið og hann á ég greinilega eftir að finna.
Ég er ekkert bitur neitt sko (auðvitað er ég bitur), mér finnst bara alveg fáránlegt hvað þetta er mikill skrípaleikur að vera á lausu. Svo líður mér bara eins og þegar ég var unglingur og langaði bara til að keyra framhjá húsinu hjá einhverjum sætum strák í von um að sjá glitta í hann nema núna þorði ég loks að banka upp á og spyrja hvort ég mætti koma inn og mér líður svolítið einsog mér hafi verið haldið í dyrunum í hálftíma og svo hent út. En ég á betra skilið og því segi ég eins og stúlkan sagði í ameríska þættinum um daginn;
Romance is dead; long live romance.

En eins og ég sagði þá er ég samt hamingjusöm því ég er það sem ég er og ég er sátt við það.

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Ég komst að því í kvöld að það býr í alvöru fólk í Mosfellsbæ. Ég fór meira að segja inn í hús þar...myndi líklega ekki rata þangað aftur. En mjög áhugavert að skoða brjóstahaldara, leirmuni, gull og sokkabuxur. Keypti BARA sokkabuxur! Hefði kannski keypt annað ef ekki hefði verið fyrir það að við Óðinn Harri fórum í búðir fyrr í dag og komum heim með (úr IKEA) nýtt sturtuhengi 1490 kr, sósuhrærara úr plasti 90 kr. (sem má fara í teflonpotta og nær alveg í hliðarnar), eldhúsáhöld handa Óðni kr.490 (verður að styðja við matargerðarmanninn í honum) og svo kók og pylsur fyrir 2 sem kostaði 398 kr. Einnig keyptum við flísar (í Álfaborg) fyrir 375 kr. (vantaði 11 upp á að geta klárað en í fyrramálið kemur einhleypur flísari að klára fyrir mig eldhúsið), en sko ferðin endaði í B.T. þar sem ég keypti handfrjálsan búnað fyrir gsm kr.1599 (hinn var ónýtur og ég þarf allltaf svo mikið að hringja þegar ég er í bíl), síma kr.2490 (ódýran borðsíma því það heyrist ekkert í einum síma í þessarri stóru íbúð) og Spiderman-dvd útgáfuna kr. 3299. Ég meina ég hefði hvort eð er endað með að taka hana fyrir krakkana svo oft að þetta svarar alveg kostnaði. Eina sem mig vantar núna (fyrir utan allt hitt) er smásía á nýja símann svo ég geti talað í hann því það suðar rosalega á línunni útaf ADSL-inu mínu. Og nei ég er ekki shopaholic!!! En get bent á skemmtilegar bækur um eina slíka hér. Ég á reyndar tvær fyrstu.

Jæja eiginlega veitir mér ekkert af því að fara bara að sofa. Unnur tók upp á því að ætla að mæta í skólann klukkan 00.30 í nótt en ég sendi hana aftur upp í rúm auðvitað. Svo snemma morguns byrjaði vekjaraklukka að hringja inni hjá henni. Ég vissi að ég hafði stillt mína á 7 og hún var ekki búin að hringja svo ég staulaðist fram úr eftir um það bil 10 mínútur og jú slökkti á klukkunni hjá Unni og klukkan var 06.10. Henni datt semsagt í hug að vakna klukkan 06.00. Henni dettur það ekki í hug aftur. Nú ég skreiddist aftur upp í rúm og hugsaði um að ég mætti kúra í 50 mínútur enn áður en mín myndi hringja. Vaknaði klukkan 08.10 við dyrabjölluna. Auðvitað var ég margoft búin að rumska og hugsa um að vakna en klukkan var ekki búin að hringja og ég þráði hvíld. HMMMMM, mín bara gleymdi að stilla, eða réttara ég stillti bara ekki nógu vel. Þetta var semsagt í annað sinn síðan í haust sem ég sef yfir mig. Ég er því samt ósköp þakklát að eiga börn sem geta sofið út.

mánudagur, nóvember 04, 2002

Þetta er mjög skemmtilegur pistill.

sunnudagur, nóvember 03, 2002

R E S P E C T - Ég vel það að bera virðingu fyrir sjálfri mér.


Bloggið hennar Lindu vakti mig til umhugsunar.

Ég veit hvað ég vil, pottþétt. Ég er ánægð í náminu og það gengur vel. Ég er ánægð með heimilið mitt. Ég á yndisleg börn sem eru heilbrigð og dugleg. Ég á skilningsríka fjölskyldu og vini sem styðja mig þegar á brattann sækir. Ég er í fyrsta skipti fullkomlega ánægð með sjálfa mig og það sem ég er að gera. Ég veit að ég vil mann sem styður mig og virðir mig og óttast ekki að takast á við erfiðleikana. Mann sem tekur afstöðu með mér en ekki á móti mér. Mann sem setur mig í fyrsta sæti á eftir sjálfum sér og elskar mig að sjálfsögðu. Ég vil mann sem ÉG elska útaf lífinu og ber virðingu fyrir. Ég vil mann sem er sáttur við sjálfan sig og það sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég vil mann sem ég get verið eðlileg með þar sem ég þarf ekki að passa hvað ég segi og geri. Mann sem er sjálfstæður en fús til að vera hluti af fjölskyldu. Ég veit að enginn maður er fullkominn ekki frekar en ég. Ég hef hins vegar engan áhuga á því að láta spila með mig og nota mig til að gera aðra afbrýðisama. Ég á betra skilið. Ég á ekkert nema gott skilið. Ég vil jafningja.
Ég vel að bera ábyrgð á mínum tilfinningum og neita að bera ábyrgð á tilfinningum annarra. Eins og segir hér efst á síðunni minni, "Courage comes by being brave; fear comes by holding back. " Það tók ótrúlegt hugrekki að horfast í augu við tilfinningar mínar og að gera öðrum það ljóst hverjar þær eru.
Ég sé ekki eftir því. En núna get ég sagt einmitt að ég hef sannað hugrekki mitt og ég neita að vera hrædd. Hræðslan tekur frá manni upplifanir. Þetta er eins og þegar maður er skotinn í einhverjum og þorir ekki að hringja og bjóða honum út. Hvernig getur maður vitað hvort hann vill mann eða ekki ef maður þorir ekki að spyrja?? Maður verður alltaf að taka áhættur í lífinu til að fá það sem maður vill. Sumt er hreinlega áhættunnar virði. Maður kemst náttúrulega ekki sársaukalaust í gegnum lífið og það sem drepur mann ekki gerir mann bara sterkari eins og ég hef sagt áður.
Ég veit það alla vega núna að ég er fær um að verða ástfangin og það er mikils virði og einhver á einhverntíma eftir að njóta góðs af því.