fimmtudagur, október 31, 2002

Talandi um klám. Ég kíkti aðeins inn á Elvis2 og verð að segja að hann er helvíti góður penni, annað en þessi Blíða sem mætti hressa aðeins upp á íslensku kunnáttu sína.

Annars er ég búin að vera slæm í bakinu og náði ekki að vinna frétt fyrir morgundaginn... fyrsta sinn sem ég klikka ... ansk..

En það verður alveg nóg að gera um helgina... vei ritgerð um klámmynd, með Cicciolinu og John Holmes. En myndin er síðan 1987 og er viðbjóðslega hallærisleg og svo fleira...

En fingurnir á mér eru ekki að virka núna svo best að eyða þeim ekki í þetta pikk...
ætla að sækja vin minn út á flugvöll á morgun og kíkja í Bláa lónið ... vonandi gefur það mér orku fyrir helgina.

þriðjudagur, október 29, 2002

Það er nú til lítils að setja inn svaðalega flotta gestabók ef enginn vill skrifa neitt í hana, bú hú. Jonninn bara komin til Frakklands. Ég ætla rétt að vona að hann bloggi eitthvað skemmtilegt um för sína þangað. Forvitni manns er alltaf svo mikil að maður verður hálf pirraður þegar fólk hættir að blogga og gægjuþörf manns er ekki svalað.

Og veturinn er kominn og ég dóninn sá arna fljót á vetrardekkin og segi bara skítt með malbikið. Æ ef ég ætti ekki blessuð börnin þá myndi ég nú spara bílinn meira en ég er ekki meiri ofurhetja en það að ég þarfnast bílsins til að fljúga á milli staða.

Mamma er bara eiturhress, guði sé lof. Hún er náttúrulega hörkukona (eins og dóttirin er að sjálfsögðu líka) og það mætti halda að hún hefði bara aldrei gert annað en að láta fjarlægja brjóst. Vonum bara að það komi ekki að því aftur hjá henni samt.

Hmm, skólinn bla bla gengur nokk vel. Og mér til mikillar ánægju verð ég komin í jólafrí eftir 12.00 þann 10. desember. Þvílík sæla.
En þangað til þá er það bara harkan sex og ekkert slór... hmm, hmm sjúkraþjálfarinn minn minnti mig reyndar á það í dag að muna að hvílast....
ég á bara eftir 2 tíma hjá henni og það er bara jákvætt, fjárhagslega séð allavega.



mánudagur, október 28, 2002

Ég er farin að hafa áhyggjur af öllu þessu klámi sem ég er að horfa á og heyra um. Það er, hvaða áhrif þetta hefur á mig. Það er spurning hvað er viðeigandi og óviðeigandi að ræða um hér en það er eitt sem víst er og það er að ég virðist frekar frjálslynd og allt þetta klám er ekki hollt fyrir konu án karlmanns.

Fór að sjá Ron Jeremy á fimmtudaginn og ókei allt í lagi að sjá myndina en mér fannst það frekar óviðeigandi að standa upp og hylla hann sem þjóðhetju. En fín skemmtun!!!

fimmtudagur, október 24, 2002

Þvílíkt bull og vitleysa, var að hugsa um að henda út en er kannski óþarfi að ritskoða sjálfan sig um of.

miðvikudagur, október 23, 2002


Ég mundi allt í einu eftir þessu:

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur


og þetta án þess að ætla að vera með einhver harmakvein þá er þetta alveg satt og er mjög góð áminning til allra:

Ef þú elskar eitthvað
gefðu því frelsi
ef það kemur aftur til þín
er það þitt
ef ekki
þá var það aldrei þitt.


Það getur verið ótrúlega gott að fjarlægjast hluti og tilfinningar ef þær eru of ákafar því maður sér ekki það sem er of nálægt sér.

Hmm, hmm það var þetta með bækurnar...
Móðir mín er eftir atvikum hress en hún varð einu brjósti fátækari í dag. Það er svona hálfgert lán í óláni að umræða um brjóstakrabbamein hefur verið í hámarki síðustu vikur og maður því mun betur upplýstur en annars. Hún verður reyndar frá vinnu næsta hálfa árið alla vega því eftir er lyfjameðferð og jafnvel geislameðferð en það fer allt eftir því hvers konar krabbameinsfrumur hún var með því brjóstakrabbamein er ekki bara brjóstakrabbamein. Amma mín, móðuramma, missti líka eitt brjóst þegar hún var á svipuðum aldri og mamma er núna. Það er eins gott að sinna sjálfum sér vel og leita reglulega, engan trassaskap takk!

En það er margt sem brennur á mér, margt sem ekki má hugsa um þessa dagana. Ég held ég komi til með að einbeita mér bara fullkomlega að skólanum og börnunum og láta allt annað lönd og leið enda slítandi að heyja vonlausa baráttu. Ég verð bara að kyngja kökkinum og halda áfram og þakka fyrir það sem gott er... eins og það að allar líkur eru á að mamma nái sér fullkomlega.

Veit ekki stundum afhverju ég held áfram að blogga. Hef heyrt því fleygt að það sé merki um marga neikvæða hluti en mér er sama. Það veitir mér ákveðna fróun og ég gefst alltaf upp að halda einkajournal. Ég hef marg oft reynt að halda dagbók og ég meira að segja gerðist svo kræf að henda þessum fornu ritum eitt sinn því ég kærði mig alls ekki að rifja upp ástarsigra og sorgir... Ég er með nógu gott minni hvort eð er. Annars virðist ég aðallega muna allt þetta vandræðalega og neikvæða ... týpískt. En ég hef reynt að rifja upp góðu hlutina og finn að það hjálpar mjög mikið. Jafnvel að taka slæmar minningar og reyna að sjá jákvæðu hliðarnar. Þær hljóta allaf að vera til staðar. Eða hvað?

Bækurnar bíða og lífið líka. Ég hef ákveðið að dagurinn í dag sé fyrsti dagur míns nýja lífs ha ha ha ha ha ha aldrei sagt þetta áður eða hvað?
Gríptu daginn! Life is what YOU make of it.

mánudagur, október 21, 2002

Ég er nú nánast alveg hætt að vesenast í spádómum og öðru kukli en var að skoða gamalt blogg á gömlu síðunni minni og mundi eftir því að ég fór inn á spámanninn 7. september spurði spurningar og ég ákvað að prófa aftur sömu spurningu og hvað haldið þið? ég fékk sama svarið, sama spilið. Mér finnst það pínku merkilegt.

Sverðriddari

Persónuleiki
Ungi maðurinn er kjarkaður, gáfaður og er fær um að takast á við erfiðar aðstæður á jákvæðan máta. Hann tekst á við hindranir á opinn og hreinskilinn hátt. Hér er á ferðinni góður vinur og á það ekki síður við þegar þú stendur frammi fyrir erfiðleikum einhverskonar. Hann verður til staðar þegar þú þarfnast.

Aðstæður
Erfiðleikar einhverjir virðast angra þig. Mannleg samskipti tengjast erfiðleikum þessum þar sem þú ert ekki sátt/ur við fólkið sem þú umgengst. Þú munt komast yfir þennan erfiða hjalla og endar nást saman fyrr en síðar þar sem útkoman verður þér í hag.

Þú ættir ekki að hika við að segja hug þinn
Þá er ég búin að setja inn gestabók meðal annars.
Vil endilega benda á Ásgeir sem er staddur í Tékklandi
og segir okkur af dvöl sinni reglulega. Ég er orðin spennt
að fá fréttir af hegðun FS-inga í Tékklandi.
Undur og stórmerki gerðust í gærkvöld/nótt þar sem
jonniebegoode bloggaði eftir langa þögn.
Skrifaði hallærislega klausu í Magasín í dag á DV. Varð reyndar að fara fyrr heim en til stóð þar sem heilsan er
enn ekki orðin góð. Ekki þynnka enn heldur sama og hrjáði mig á fimmtudag og föstudag fyrir djamm.
Held það kallist á mannamáli streita og þreyta.
En það var gaman að fá að kíkja inn á DV þó ég hefði viljað vera allan daginn.

sunnudagur, október 20, 2002

Davíð fór nú alveg með það í dag í fréttunum þegar hann vildi meina að það væri ekki svona
mikil fátækt það væri bara svo margir sem notfærðu sér það sem fengist frítt. Auðvitað eru
alltaf einhverjir sem gera það en halló halló... þetta minnir mann á frönsku pæjuna sem spurði
"afhverju borða þeir ekki bara kökur?"

KRÆSTUR
Talandi um Dísu. Hún átti heima á Laugavegi 40a en flutti í ágúst að mig minnir þaðan.
Guði sé lof.
En það eru ófáir kaffibollarnir sem voru drukknir í risinu þarna.
Ja hérna. En helgin var ágæt fyrir utan það að hafa orðið það ölvuð
á föstudaginn að ég varð veik og það gerist ekki oft en olli því samt
að ég er búin að vera frá af gigtinni, og var slæm fyrir. Hmmm....
kannski að ég endurhugsi það að fá mér í glas þegar gigtin er slæm....
use my common sense....
maður er ansi duglegur að ignora það ha.
Ætla að kíkja á DV á morgun, verður forvitnilegt hvað
maður fær að gera.... starfþjálfunarvika í gangi og frí í blaðamennskukúrsinum á móti
verst að ég missi af kláminu á morgun í staðinn... eða kannski bara best...

"What doesn't kill you makes you stronger" er það ekki!

miðvikudagur, október 16, 2002

Dísa klikkar ekki. Kemur manni alltaf í gott skap!
Ég fór í smá volæðisskap í dag, var dauðþreytt og ómöguleg.
Reyndi að leggja mig en gekk ekki. Bloggaði væl en sem
betur fer er hægt að gera 'delete'.

Dísa kom í heimsókn og við drukkum kaffi, og spjölluðum.
Reyndum ekki að leysa alheimsgátuna en bara vandamálin
sem standa manni næst. Það gekk vel. Linda átti sinn þátt
fyrr í dag en það jafnast ekkert á við að hitta fólk. Það er mun
áþreifanlegra en samtal í síma, á MSN eða í tölvupósti.

Mér líður vel og er búin að fá plástur á tilfinningasárið mitt.

þriðjudagur, október 15, 2002

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga...(eða snjó í skafla)
Það er kleppur að gera í skólanum og fingur hægri handar eru ískaldir og stirðir en ég má ekki gefa neitt eftir. Ég verð að skila 5 bls ritgerð á morgun (fyrst er að klára bókina sem ritgerðin á að vera um) og klára eina grein í dag og skrifa 2 umfjallanir um klám (það er svo gaman í skólanum - við fáum að horfa á klám) og svo er bara að skella sér á þing á morgun og skrifa þingfrétt annað kvöld og skila á hádegi á fimmtudaginn og þá má ég bara draga andann og njóta helgarinnar. Við ætlum að fara í vísindaferð á Morgunblaðið á föstudaginn og djamm á eftir og í næstu viku ætla ég að vinna einn dag hjá DV. Verð örugglega sett í eitthvað skítadjobb en það verður ábyggilega mjög gaman samt, ég var búin að skrá mig á fimmtudaginn en ætla að fá að færa mig á þriðjudag vegna þess að mamma fer í aðgerð á miðvikudeginum og ég vil vera laus daginn eftir til að geta heimsótt hana á spítalann og verið hjá henni. Já það er aldrei nein lognmolla í kringum mig skal ég segja ykkur. Ég er meira að segja búin að átta mig á því hvað ég vil en spurningin er vill það mig!!! Kræstur hvað maður getur verið sorglegur!

Það er algerlega ótrúlegt hvað maður fer að hugsa allt öðruvísi um klám og ofbeldi eftir að sitja þennan kúrs hjá henni Guðbjörgu um áhrif kláms og ofbeldis í myndmiðlum. Það liggur við að maður kasti upp yfir sumu efninu sem við erum að sjá og heyra um. En allt saman mjög áhugavert engu að síður og ég er nógu mikill perri í mér til að finnast pínku gaman að þessu líka en nú er tími til að drepa risafiskiflugu sem suðar í kringum mig áður en ég tek við að klára að lesa um menn forsetans í Watergate-málinu.

fimmtudagur, október 10, 2002

Ég er svona sorgleg í dag... ekki bara að ég skuli blogga en ég er líka að taka próf ------
held ég þurfi sérfræðiaðstoð!

.
.
.
What is my spectrum?

I am green: My main color is green. I like to have fun and comfort. Happiness is the marker of a great life.

.
What is my spectrum?
Það mætti halda að það væri ekki nóg um streitu í mínu lífi þessa dagana. Ég stillti vekjaraklukkuna samviskusamlega í gærkvöldi og fór að sofa mjög afslöppuð með það að hún hringdi klukkan átta. Unnur Helga átti nefnilega ekki að mæta í skólann fyrr en klukkan 9.15 vegna þess að hún var að fara í samræmt próf í íslensku sem átti að byrja klukkan 9.30. Fyrirmælin voru að barnið færi snemma að sofa og fengi hollan og góðan morgunverð og kæmi úthvílt og afslappað í prófið. Klukkan var 9.20 þegar við vöknuðum. Fyrsta skiptið sem við sofum yfir okkur á þessu skólaári og við erum alls ekki gjörn á það. Óðinn er náttúrulega vanur því að sjá um að vekja liðið. Ekki í dag semsagt. En Unnur var allavega úthvíld en kannski ekki afslöppuð og holli morgunverðurinn varð að samloku með súkkulaðismjöri. Hún tók samloku með kæfu í nesti. Og ég mætti sveitt með Óðin á leikskólann og hugsaði með mér að þetta væri bara alveg eins og í Sellófan. Svo nú er ég að reyna að ná mér niður og undirbúa það að skrifa einhverja krappí grein fyrir skólann ... það er leiðinlegt þegar maður þarf að slá af kröfunum til sín en kannski er það mér bara hollt. ÉG VERÐ VÍST SEINT FULLKOMIN MEÐ ÞESSU MÓTI HA HA HA!

mánudagur, október 07, 2002

Ja hérna hér... ég var að fá mjög athyglisverðar upplýsingar! En þeim held ég útaf fyrir mig. Veit ekki afhverju ég er þá yfirleitt að nefna það nema til að gera þá sem nenna að kíkja hérna inn forvitna...
Það vita það kannski fáir en nafnið Is a Woman er heiti á geisladisk með hljómsveit sem nefnir sig Lambchop... yndislegur diskur.


Love does not consist in gazing at each other
but in looking outward together in the same direction.

*Antoine De Saint-Exupéry

fimmtudagur, október 03, 2002

Linda er komin heim!

Og ég er að hamast við að klára heimapróf í Inngangi að fjölmiðlafræði.
Þetta á ég eftir:
Ræðið með gagnrýnum hætti hugtakið hlutlægni. Takið m.a. mið af greiningu Westerståhls.
Hér liggur skilgreining hugtaks fyrir, en hins vegar er unnt að skilgreina það á ýmsan annan veg og einnig er umdeilt hvort hlutlægni (objectivity) sé nothæf sem hugmynd og markmið. Hér er óskað eftir rökstuddu mati. Jafnframt má gera samanburð á skilgreiningum en það er þó ekki sjálfgefinn hluti svarsins.


Tek þetta með trompi eins og allt annað!

þriðjudagur, október 01, 2002

Linda kemur heim á morgun. Það verður gaman.
No one can make you feel inferior without your consent sagði Eleanor Roosevelt.